UM LAGIÐ
Lagið sem þessi útsetning byggir á er vikivaki eða hringdans sem ýmist er talinn af íslenskum eða færeyskum uppruna enda náskyldur færeyska sagnadansinum Óluvu kvæði. Ég hef lagið eftir eyra og uppskrift Bjarna Þorsteinssonar.
UM ÚTSETNINGUNA
Útsetningin skiptist í 3 hluta og er hún sett við fyrstu 2 erindi Álfadans og Góða veislu gjöra skal. Fylgiraddirnar eru innblásnar af hrynjanda hringdansins sem dansaður er við lagið. Þegar dansaður er vikivaki mynda dansarar hring, haldast í hendur eða taka um axlir hvers annars og stíga tvö dansspor til vinstri og eitt til hægri. Tilvalin undirbúningsæfing er að stíga vikivaka með hljóðfæraleikurunum og syngja lagið með.
Þessi útsetning er meira krefjandi fyrir selló og bassa en fiðlur og víólur, nokkuð sem gott er að hafa í huga þegar skipað er í raddir. Fylgirödd 1 er skrifuð tvíradda, hægt er að spila hana á lausum strengjum á fiðlur en víólur, selló og kontrabassar þurfa að geta sett 1. fingur á D streng. Ef 2. og 3. hluti eru of krefjandi fyrir fylgirödd 2 er ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka 1. hluta og koma svo inn í takt 27 í lokin. Fylgirödd 3 bæði hljómsetur og tekur undir laglínuna. Víóla, selló og bassi geta valið að spila laglínuna áttund neðar ef það hljómar betur.
TILBRIGÐI
Álfadans Jóns Ólafssonar er alls 3 erindi og hægt er að flytja öll erindin með söng með því að endurtaka það erindi sem hentar hópnum best. Einnig má taka eitt erindi út úr útsetningunni og endurtaka eftir smekk. Þá er tilvalið að leika fylgirödd 2 ýmist pizzicato eða arco.
HLEKKIR
Álfadans - Góða veislu gjöra skal
Heimilt er að deila stökum skjölum og hljóðskrám rafrænt með nemendum.